Hrafnhildur sló eigið Íslandsmet

Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur átt góðu gengi að fagna um helgina.
Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur átt góðu gengi að fagna um helgina. mbl.is/Hari

Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr SH, sló í dag eigið Íslandsmet í 50 metra bringusundi á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem er að ljúka í Laugardalslauginni.

Hrafnhildur kom í bakkann á tímanum 30,42 sekúndum og bætti eigið Íslandsmet um 5/100 úr sekúndu, en það var 30,47 sekúndur og hafði staðið síðan í desember í fyrra. Tíminn er jafnframt lágmark inn á Evrópumeistaramótið í næsta mánuði.

Þetta voru fimmtu gullverðlaun Hrafnhildar í einstaklingsgrein á mótinu, en hún vann einnig í 100 og 200 metra bringusundi og í 100 og 200 metra fjórsundi. Þá var hún í sveit SH sem setti Íslandsmet í 4x100 metra fjórsundi í gær.

Önnur í 50 metra bringusundinu í dag varð Karen Mist Arngeirsdóttir á 33,18 sekúndum og bronsið fékk Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir á 34,61 sekúndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert