Bjarki Þór í aðalbardaga í London

Bjarki Þór Pálsson.
Bjarki Þór Pálsson. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

Bjarki Þór Pálsson mætir Quamer „Machida“ Hussein í aðalbardaga Fightstar Championship-bardagakvölds sem fram fer í London 7. október.

Bjarki Þór Pálsson (3:0) er einn farsælasti atvinnubardagamaður okkar Íslendinga. Sem áhugamaður vann hann 11 bardaga og tapaði einungis einum. Hann varð Evrópumeistari áhugamanna í veltivigt undir árslok 2015 og eftir það steig hann stóra skrefið yfir í atvinnumennskuna.

Þremur bardögum síðar er Bjarki Þór enn ósigraður og nú hefur sá fjórði verið staðfestur 7. október í Lundúnaborg. Andstæðingur hans er hinn breski Quamer „Machida” Hussein (6:2). Quamer þessi þykir afar öflugur bardagamaður og er talsvert reynslumeiri en Bjarki Þór. Bardagi þeirra, sem fram fer í léttvigt, verður aðalbardagi Fightstar Championship 12 bardagakvöldsins sem fram fer í Brentford Fountain Leisure Center sem er um 2.000 manna salur í Suðvestur-London.

„Ég er gríðarlega sáttur með að vera búinn að fá svona öflugan andstæðing og að búið sé að ganga frá þessu öllu saman. Ég barðist seinast í apríl og það er alveg orðið tímabært að fara aftur í búrið og halda þessu ævintýri áfram,“ segir Bjarki Þór og bætir við:

„Ég er í frábæru formi núna. Ég er að fara aftur í léttvigt, en í seinustu tveim bardögum hef ég barist í veltivigt sem er þyngdarflokkurinn fyrir ofan, 7 kílóum þyngri. Ég er því léttari, sneggri og snarpari, en hef alveg viðhaldið styrknum. Sjálfstraustið er í botni og ég bara veit að þetta verður besti bardaginn minn á ferlinum.“

Fleiri Íslendingar berjast sama kvöld

Bjarki Þór verður ekki eini íslendingurinn á þessum viðburði þar sem þrír aðrir úr okkar röðum eru þegar búnir að fá sína andstæðinga staðfesta. Ísfirðingurinn Bjarki „Big Red“ Pétursson (1:0) mætir Felix Klinkhammer (4:0) í -81 kg „catchweight“-áhugamanabardaga, Þorgrímur „Baby Jesus“ Þorgrímsson (1:0) mætir Dalius Sulga (4:3) í veltivigtaráhugamannabardaga og Akureyringurinn Ingþór Örn Valdimarsson (0:1) fer í sinn annan atvinnubardaga gegn hinum pólska Dawid Panfil (0:0) í millivigt.

Í morgunþætti Svala og Svavars á K100 í morgun var nánar rætt um málið og finna má upptöku frá því hér að neðan. Einnig má opna hana HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert