Þrír sigrar Íslendinga í Skotlandi

Íslenska sveitin frá Mjölni í Falkirk.
Íslenska sveitin frá Mjölni í Falkirk. Ljósmynd/Aðsend

Á laugardagskvöldið kepptu fjórir Mjölnismenn í blönduðum bardagaíþróttum eða MMA á Headhunters bardagakeppninni sem haldin var í Grangemouth íþróttamiðstöðinni í Falkirk í Skotlandi. Íslensku keppendurnir voru þeir Sigurjón Rúnar Vikarsson, Bjarki Eyþórsson, Björn Lúkas Haraldsson og Bjartur Guðlaugsson, en keppt var undir áhugamannareglum.

Tveir þeir fyrstnefndu voru að keppa sinn fyrsta MMA bardaga en þetta var annar bardagi Björns Lúkasar og fimmti bardagi Bjarts sem var í öðrum aðal bardaga kvöldsins. Í stuttum máli unnu þeir Sigurjón Rúnar, Bjarki og Björn Lúkas sína bardaga en Bjartur varð að sætta sig við tap eftir dómaraúrskurð. Þess má geta að Bjarki og Björn Lúkas unnu sína bardaga mjög örugglega með uppgjafatökum í fyrstu lotu og Sigurjón Rúnar vann sinn bardaga á dómaraúrskurði.

Þeir Gunnar Nelson, Hrólfur Ólafsson og Bjarki Ómarsson voru hornamenn fjórmenninganna úr Mjölni.

Í heild geta Íslendingar vel við unað með þrjár sigra og eitt tap og tveir sigranna komu í fyrstu lotu eftir uppgjafartök. Þess má geta að myndbönd frá bardögunum má nálgast á Facebooksíðu Mjölnis á slóðinni https://www.facebook.com/MjolnirMMA/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert