Íþróttafólkið um borð í rútu

Íslensku keppendurnir í sundi eru komnir af stað í rútu.
Íslensku keppendurnir í sundi eru komnir af stað í rútu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska íþróttafólkið sem lenti í ógöngum í London, vegna bilunar hjá British Airways, er komið á ferðina og er stefnt að komu til San Marínó í kvöld.  

„Þau eru komin í rútu og síðast þegar við heyrðum voru þau á leiðinni til Dover (í suðurhluta Englands),“ sagði Örn Andrésson, annar aðalfararstjóra ÍSÍ á Smáþjóðaleikunum, þegar mbl.is spurði hann út í gang mála. „Nú er unnið að því hvort þau fari í gegnum Lúxemborg eða París. Einnig er verið að kanna hvort þau muni fljúga til Flórens eða hvort þau geti flogið eitthvert nær San Marínó. Þau ættu að skila sér um níu leytið í kvöld en þau ættu að ná flugi um sex leytið,“ sagði Örn ennfremur og bætti því við að starfsfólk Vita hafi verið afskaplega hjálplegt í þessum aðstæðum sem upp komu. 

Þar sem ekki er lengur um að ræða biðstöðu um hvað gæti gerst í London þá er ekki útlit fyrir að íþróttafólkið muni missa af keppni. Standist þessar áætlanir þá verður það ekki vandamál þar sem keppni hefst ekki fyrr en á morgun. Um er að ræða keppendur og fylgdarlið í sundi og körfubolta. Á morgun stendur til að keppa á móti Lúxemborg og Kýpur í körfuboltanum og á fundi tækninefndar í dag verður tekin ákvörðun um hvort því verði frestað til föstudags vegna þessarar uppákomu.

Dóttirin með í för 

Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, er þó komin frá London til San Marínó. Hún skilaði sér fyrir stundu ásamt Sigríði Ingu Viggósdóttur starfsmanni KKÍ. Þær voru þó ekki einar því með í för er fjögurra mánaða gömul dóttir Helenu. Ekki þótti tilhlýðilegt að senda þær mæðgur í rútuferðina með hópnum og fóru þær því aðra og fljótlegri leið á keppnisstað. 

Sjá einnig: 

Helena Sverrisdóttir, körfuboltakona, og nýfædd dóttir hennar en myndin var …
Helena Sverrisdóttir, körfuboltakona, og nýfædd dóttir hennar en myndin var tekin í mars. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert