„Hélt eiginlega meira með þeim en sjálfri mér“

Anna Soffía Víkingsdóttir er hér efst á verðlaunapalli. Með henni …
Anna Soffía Víkingsdóttir er hér efst á verðlaunapalli. Með henni eru Berenika bernat og Heiðrún Pálsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru 25 núna í júdó og fjórir í BJJ [brasilískt jiu-jitsu], svo þetta eru 29 Íslandsmeistaratitlar í heildina,“ sagði Anna Soffía Víkingsdóttir, sem má með réttu nefna margfaldan Íslandsmeistara í júdó þegar mbl.is ræddi við hana að loknu Íslandsmeistaramótinu í Laugardalshöll í dag.

Eins og Anna Soffía sagði sjálf eru titlarnir orðnir ansi margir, en hvað liggur að baki svona ríkulegri uppskeru?

„Ég er alveg rosalega ákveðin og mér finnst rosalega gaman að keppa. Þegar ég var yngri þá keppti ég á öllum þeim mótum sem ég gat keppt á. Það skipti ekki máli hvort það væri í unglingaflokki eða fullorðinsflokki, ég bara keppti og keppti, svo ég er með rosalega mikla reynslu. Það vinnur alltaf með mér,“ sagði Anna Soffía.

Í öðru sæti í opnum flokki varð Berenika Bernat og bronsið fékk svo Heiðrún Pálsdóttir. Anna Soffía var ánægð með mótið í dag.

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt, það er mikið af ungum keppendum að koma upp bæði júdómönnum og júdókonum og virkilega gaman að fylgjast með því. Það voru óvæntir sigrar og óvænt töp sem mátti sjá í dag, og það er alltaf gaman að því. Við höfum verið að bíða eftir því í júdóinu að það komi ný kynslóð sem taki við af okkur hinum,“ sagði Anna Soffía.

Var bæði þjálfari og keppandi á mótinu

Aðspurð hvort hún væri þó nokkuð að láta gott heita hugsaði hún sig þó vel um.

„Það er rosalega erfitt að segja, en mér finnst þetta bara svo gaman. Ég keppti síðast 2015 og var ekki með í fyrra. Ég er orðin þjálfari á Akureyri og það er erfitt að velja hvort maður eigi að vera þjálfari eða keppandinn. Í þetta sinn ákvað ég að keppa líka, og hugsanlega fara út í framhaldinu – vonandi á Smáþjóðaleikana ef ég verð valin á þá,“ sagði Anna Soffía.

Hún er að þjálfa hjá Draupni á Akureyri og var því í þeirri sérkennilegu stöðu að glíma við stelpur sem hún er sjálf að þjálfa.

„Ég var í raun þjálfari og keppandi í dag, sem var svolítið erfitt hlutverk en mjög gaman. Ég keppti við tvær sem ég er líka að þjálfa, og ég hélt eiginlega meira með þeim en sjálfri mér. Það var svolítið óþægileg tilfinning en þeim fannst líka mjög gaman að keppa við mig og mér fannst það frábært hugarfar af þeim,“ sagði Anna Soffía og hló að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert