Fyrstu verðlaun Eyþóru á stórmóti

Eyþóra Þórsdóttir með verðlaunin sín á EM í Cluj.
Eyþóra Þórsdóttir með verðlaunin sín á EM í Cluj. Ljósmynd/KNGU

Fimleikakonan Eyþóra Elísabet Þórsdóttir, sem keppir fyrir Holland, vann til tvennra verðlauna á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem lauk í Cluj í Rúmeníu í gær.

Eyþóra keppti til úrslita á tveimur áhöldum og vann til verðlauna á þeim báðum. Hún fékk silfur á jafnvægisslá þar sem hún fékk 14,066 stig en Catalina Ponor frá Rúmeníu vann með 14,566 stig.

Eyþóra fékk bronsverðlaun fyrir gólfæfingar þar sem hún náði 13,700 stigum. Angelina Melnikova frá Rússlandi varð Evrópumeistari þar með 14,100 stig og Ellie Downie frá Bretlandi tók silfrið með 14,066 stig.

Þetta eru fyrstu verðlaun Eyþóru á stórmóti en hún náði einnig frábærum árangri á Ólympíuleikunum í ágúst í fyrra þar sem hún varð í 9. sæti í fjölþraut. Eyþóra varð í 12. sæti í fjölþraut á EM þar sem hún fékk 51,965 stig.

Eyþóra á íslenska foreldra en er fædd og uppalin í Hollandi og keppir fyrir hollenska landsliðið. Enginn fulltrúa Íslands komst í úrslit á EM en Irina Sazonova var næst því. Hún hafnaði í 39. sæti í fjölþraut í undankeppninni en 24 kepptu í úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert