Ömurleg ummæli um óléttu Serenu Williams

Hin ólétta Serena Williams er ein fremsta tenniskona samtímans.
Hin ólétta Serena Williams er ein fremsta tenniskona samtímans. AFP

Sannarlega ömurleg ummæli hafa spurst út frá gamalli tennisstjörnu um óléttu Serenu Williams, einnar fremstu tenniskonu síðari ára, og er hafin rannsókn á málinu.

Rúmenska tenniskonan Simona Halep var að svara spurningum á fréttamannafundi eftir leik í Fed-bikarnum þar sem hún var meðal annars spurð út í tíðindin frá Serenu. Á meðan heyrðist í þjálfara hennar hvísla að sessunaut sínum:

„Við skulum sjá hvernig það verður á litinn. Ætli þetta verði súkkulaði með mjólk?“ Þjálfari Halep er hinn sjötugi Ilie Nastase, sem var á sínum tíma efsti maður heimslistans og einn besti leikmaður sinnar kynslóðar.

Talsmaður Alþjóðatennissambandsins sagði við BBC að ummælin hafi komið inn á borð sambandsins og hafin sé rannsókn á málinu. „Við umberum ekki niðurlægjandi ummæli eða hegðun af nokkurri tegund,“ sagði hann.

Serena er gift Alexis Ohanian sem er einn af stofnendum Reddit-vefsíðunnar. Hún hefur unnið 23 risatitla, fleiri en nokkur önnur síðan opnu meistaramótin hófu göngu sína árið 1968.

Frétt BBC

Ilie Nastase.
Ilie Nastase.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert