98% líkur hjá Irinu í Ríó

Frá Íslandsmeistaramótinu sem fram fór um helgina í Ármannsheimilinu í …
Frá Íslandsmeistaramótinu sem fram fór um helgina í Ármannsheimilinu í Laugardal. Árni Sæberg

Irina Sazonova, Ármanni, og Jón Sigurður Gunnarsson, einnig úr Ármanni, eru Íslandsmeistarar í fjölþraut en Íslandsmótið í áhaldafimleikum fór fram í húsnæði Ármanns í Laugardal um helgina.

Auk þess að verða Íslandsmeistari í fjölþraut varð Jón einnig Íslandsmeistari í gólfi og hringjum og hlaut bronsverðlaun á svifrá og bogahesti. Hann var skiljanlega ánægður þegar blaðamaður greip í skottið á honum eftir verðlaunaafhendingu í gær og sagðist Jón hafa vonast eftir því að vinna til verðlauna um helgina. „Ég vonaðist til þess að vinna fjölþrautina í gær (á laugardag) og það gekk. Síðan ætlaði ég að vinna einhverja titla í dag (í gær) og það gekk líka. Reyndar missti ég titilinn minn í svifrá og tvíslá síðan í fyrra en það er allt í lagi því ég fékk gólfið og hringina aftur,“ sagði kampakátur Jón á gólfinu í Ármannsheimilinu í gær. Sigur hans í aðalgrein helgarinnar, fjölþraut, var nokkuð öruggur. Jón hlaut 75.469 stig. Í öðru sæti varð Hrannar Jónsson, Gerplu, með 70.402 stig. Í þriðja sæti varð svo Hróbjartur Pálmar Hilmarsson, Gerplu, með 65.302 stig.

Getur reynt mikið á

„Þessi íþrótt snýst um það að gera öll áhöldin. Öll áhöld samanlagt; það eru áhaldafimleikar. Þeim er skipt niður í sex greinar. Þegar maður verður eldri eða hefur ekki getuna eða eitthvað þá fer maður kannski að einbeita sér að færri áhöldum í stað allra. Það tekur mjög mikið á líkamann að gera öll áhöldin,“ bætti Jón við.

Nánar er fjallað um Íslandsmeistaramótið í fimleikum og m.a. rætt við Irina Sazonova í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert