Ronaldo búinn að semja til 2025?

Cristiano Ronaldo á æfingu portúgalska landsliðsins í Katar í gær.
Cristiano Ronaldo á æfingu portúgalska landsliðsins í Katar í gær. AFP/Patricia de Melo Moreira

Cristiano Ronaldo er búinn að komast að samkomulagi um að spila með sádiarabíska knattspyrnuliðinu Al Nassr frá og með 1. janúar næstkomandi og til sumarsins 2025.

Þetta fullyrðir spænski fjölmiðillinn Marca í dag og segir, eins og áður, að árslaunin hjá Portúgalanum verði 200 milljón evrur á ári, sem geri hann að langtekjuhæsta knattspyrnumanni heims.

Ronaldo er laus undan samningi sínum við Manchester United eftir að honum var rift í síðasta mánuði.

Al Nassr er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar í Sádi-Arabíu eftir átta umferðir af 30, þremur stigum á eftir toppliðinu Al Shabab. Sex leikmenn sádiarabíska landsliðsins sem lék á HM eru leikmenn Al Nassr og meðal annarra leikmanna eru Vincent Aboubakar, sem skoraði sigurmark Kamerún gegn Brasilíu á HM, og David Ospina, landsliðsmarkvörður Kólumbíu.

Ronaldo er í Katar og býr sig undir leik með portúgalska landsliðinu gegn Sviss í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins en hann fer fram annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert