Fær traustið í úrslitaleiknum

Caoimhin Kelleher í baráttu við Gabriel Martinelli á fimmtudagskvöld.
Caoimhin Kelleher í baráttu við Gabriel Martinelli á fimmtudagskvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, segir að írski markvörðurinn Caoimhin Kelleher muni frá traustið í úrslitaleik enska deildabikarsins gegn Chelsea sem fram fer á Wembley undir lok febrúar.

Kelleher hefur spilað alla leiki Liverpool í deildabikarnum á tímabilinu að undanskildum einum, fyrri leik liðsins gegn Arsenal í undanúrslitunum, þegar aðalmarkvörðurinn Alisson stóð á milli stanganna.

„Caoimhin mun spila ef hann er heill heilsu. Við teljum Caoimhin vera framúrskarandi markvörð. Ekki góðan markvörð, framúrskarandi markvörð og við viljum halda honum hér,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

Hann bætti því að Alisson hafi spilað fyrri leikinn gegn Arsenal vegna fjarveru sinnar í kjölfar þess að hafa smitast af kórónuveirunni skömmu áður.

„Til þess að halda honum hér verður að sjá til þess að nokkrir hlutir séu til staðar, að hann fái að spila vissa leiki. Fyrir leiktímabil hugsarðu um það og ræðir það og þetta snýst auðvitað allt um að standa sig vel.

Ef hann hefði ekki staðið sig jafn vel og hann hefur gert þegar hann hefur spilað myndi ég kannski horfa öðrum augum á þetta en hann hefur sýnt að hann á allt það traust og trú sem við höfum á honum,“ bætti Klopp við um Kelleher.

Kelleher lék vel í síðari leiknum gegn Arsenal á fimmtudagskvöld þegar hann hélt hreinu í 2:0-sigri.

„Hugmyndin eins og staðan er núna er sú að Caoimhin mun spila. Sjáum til þangað til en ég sé satt að segja enga ástæðu fyrir því að hann geri það ekki, því Caoimhin á það skilið. Hann kom liðinu þangað sem það er komið,“ sagði Klopp einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert