Sjö Íslendingalið komust í þriðju umferð

Jón Guðni Fjóluson var í sigurliði með Hammarby í Slóveníu …
Jón Guðni Fjóluson var í sigurliði með Hammarby í Slóveníu í kvöld.

Sjö Íslendingalið víðsvegar að úr Evrópu komust í kvöld í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta en fjögur féllu úr keppni.

Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn með Hammarby sem vann Maribor 1:0 í Slóveníu og 4:1 samanlagt. Hammarby mætir Cukaricki Belgrad frá Serbíu.

Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á hjá Molde á 58. mínútu þegar liðið tapaði 2:0 fyrir Servette í Sviss en fór áfram 3:2 samanlagt. Molde mætir Trabzonspor frá Tyrklandi.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan tímann í vörn Rosenborg frá Þrándheimi sem vann FH 4:1 og 6:1 samanlagt. Rosenborg mætir Domzale frá Slóveníu.

Hákon Arnar Haraldsson kom inn á hjá danska liðinu Köbenhavn á 76. mínútu þegar liðið vann Torpedo Zhodino 5:0 í Hvíta-Rússlandi og 9:1 samanlagt. Köbenhavn mætir Lokomotiv Plodiv frá Búlgaríu.

Alfons Sampsted lék allan leikinn með Bodö/Glimt frá Noregi sem vann Val 3:0 og 6:0 samanlagt. Bodö/Glimt mætir Prishtina frá Kósóvó.

Hákon Rafn Valdimarsson var varamarkvörður sænska liðsins Elfsborg sem vann Milsami Orhei 5:0 í Moldóvu og samanlagt 9:0. Elfsborg mætir Velez Mostar frá Bosníu.

Axel Óskar Andrésson var ekki með Riga vegna meiðsla en lettneska liðið vann Shkëndija á útivelli í Norður-Makedóníu, 1:0, og 3:0 samanlagt. Riga mætir Hibernians Paola frá Möltu.

Jón Dagur fékk rauða spjaldið

Jón Dagur Þorsteinsson leikmaður AGF frá Danmörku fékk sitt annað gula spjald og þar með rauða spjaldið á 26. mínútu þegar lið hans gerði 1:1 jafntefli við Larne frá Norður-Írlandi og féll út 2:3 samanlagt.

Oskar Tor Sverrisson kom inn á hjá Häcken á 76. mínútu en Valgeir Lunddal Friðriksson var allan tímann á bekknum þegar sænska liðið vann Aberdeen 2:0 í Gautaborg. Aberdeen vann hinsvegar 5:3 samanlagt og mætir Breiðabliki.

Viðar Örn Kjartansson lék ekki með Vålerenga vegna meiðsla þegar liðið sigraði Gent frá Belgíu 2:0 í Ósló. Gent vann hinsvegar einvígið 4:2 samanlagt.

Willum Þór Willumsson lék ekki með BATE Borisov vegna meiðsla þegar lið hans tapaði 1:4 fyrir Dinamo Batumi frá Georgíu á heimavelli, og þar með 2:4 samanlagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert