Átján ára Skagamaður lék Evrópuleik með Köbenhavn

Hákon Arnar Haraldsson er leikmaður Köbenhavn.
Hákon Arnar Haraldsson er leikmaður Köbenhavn. Ljósmynd/FCK

Hákon Arnar Haraldsson, átján ára Skagamaður, þreytti í kvöld frumraun sína með aðalliði danska félagsins Köbenhavn þegar það vann stórsigur á útivelli í Sambandsdeild Evrópu.

Köbenhavn vann Torpedo Zhodino 5:0 í Hvíta-Rússlandi og fylgdi eftir góðum 4:1-heimasigri í fyrri leiknum á Parken. Hákon Arnar var ekki í hópnum í fyrri leiknum en var valinn fyrir leikinn í kvöld og kom inn á sem varamaður á 76. mínútu þegar staðan var 4:0.

Það gerði hann af krafti því Skagastrákurinn fékk gula spjaldið sjö mínútum síðar fyrir að senda boltann í mark Hvít-Rússanna eftir að dómarinn var búinn að flauta.

Á heimasíðu FCK er rætt við Hákon. „Ég er ánægður með að hafa leikið minn fyrsta leik fyrir stórt félag eins og FCK þannig að þetta er stór dagur fyrir mig. Ég vissi ekki hvort ég fengi tækifæri en maður vonast alltaf eftir því þegar maður er á bekknum, og sem betur fer var röðin komin að mér í dag. Ég skoraði líka mark, þótt það hafi endað á gulu spjaldi, því það var búið að flauta, en það spillti ekki gleðinni,“ sagði Hákon.

„Þetta hvetur mig til að leggja enn harðar að mér á æfingum og svo verð ég tilbúinn þegar næsta tækifæri býðst. Ég vil þakka kærlega öllum sem hafa stutt mig, fyrst og fremst fjölskyldu minni og sérstaklega mömmu sem flutti til Kaupmannahafnar til að búa hjá mér,“ sagði Hákon Arnar en foreldrar hans, Jónína Víglundsdóttir og Haraldur Ingólfsson, léku bæði með A-landsliðum Íslands á sínum tíma og Haraldur var atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert