Hamrén: Nú er nóg komið, Zlatan

Erik Hamrén var gestur Skavlans, vinsælasta spjallþáttar Norðurlanda, um helgina.
Erik Hamrén var gestur Skavlans, vinsælasta spjallþáttar Norðurlanda, um helgina. Skjáskot/SVT

Erik Harmén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, blæs á þann orðróm að sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic hafi komist upp með að gera hvað sem hann vildi þegar Hamrén var þjálfari sænska liðsins.

Hamrén þjálfaði sænska landsliðið frá árinu 2009-2016 en því hefur gjarnan verið haldið fram að liðsandinn hafi ekki verið upp á marga fiska í sænska landsliðinu á þeim tíma og stjörnuframherjanum Zlatan Ibrahimovic einkum verið kennt um. Í nýrri bók fótboltablaðamannsins Olof Lundh er rakið hvernig Zlatan á að hafa deilt og drottnað landsliðinu. Haft er eftir heimildarmönnum að hegðun hans mætti kalla „fullorðinsofbeldi á háu stigi og eitthvað sem hefði mátt tilkynna til lögreglu.

Í viðtali í sænsk-norska spjallþættinum Skavlan um helgina sagði Hamrén að hann gæti ekki tjáð sig um það sem fram kæmi í bókinni, en hann gæti tjáð sig um það sem hefði verið sagt í fjölmiðlum. „Það er ekki rétt að hann hafi getað gert allt sem hann vildi í landsliðinu. Það passar ekki,“ sagði Hamrén.

Hann virtist þó ekki hafna ásökunum um einelti. „Jú,það var umræða eftir leikinn gegn Ítalíu [í riðlakeppni EM 2016] milli Zlatans og eins leikmanns þar sem ég varð á endanum að fara inn og segja við Zlatan: „Nú er nóg komið, Zlatan!“ Þá hætti hann,“ sagði Hamrén.

Svíar höfðu tapað leiknum 1-0 eftir mark á 88. mínútu og þar með misst af möguleikanum á að komast upp úr riðlinum. „Zlatan var pirraður út í einn leikmanninn, Oscar Lewicki, sem hefði getað fellt leikmanninn sem skoraði markið,“ rifjar Hamrén upp og útskýrir að Zlatan hafi látið tilfinningarnar bera sig ofurliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert