Lætur forráðamenn Barcelona heyra það

Gerard Pique er ekki sáttur.
Gerard Pique er ekki sáttur. AFP

Gerard Pique knattspyrnumaður hjá Barcelona lætur forráðamenn félagsins heyra það vegna þeirrar stöðu sem komin er upp hjá Lionel Messi. Reyndi Messi að yfirgefa Barcelona í sumar en án árangurs. Mun Messi þess í stað róa á önnur mið eftir leiktíðina.

Pique skrifaði sjálfur undir nýjan þriggja ára samning við félagið í vikunni, en hann er allt annað en sáttur með stöðu liðsfélaga síns frá Argentínu.

„Ég spyr sjálfan mig hvernig stendur á því að besti leikmaður sögunnar vaknar einn daginn og sendir fax, því honum finnst ekki hlustað á sig? Hvað er í gangi? Messi á allt gott skilið. Það ætti að byggja nýjan völl og nefna hann í höfuðið á Messi. Ég skil þetta ekki,“ sagði Pique við Goal og hélt áfram.

„Félagið biður leikmenn um að lækka í launum svo það geti eytt peningum í eitthvað all annað. Það særir mig. Það er vont að sjá að maðurinn sem stendur á bak við allt þetta er enn að vinna hjá félaginu,“ sagði Pique og átti þá við Josep Maria Bartomeu forseta félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert