Fær Raúl tækifæri til að stýra Real?

Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. AFP

Samkvæmt fréttum frá Spáni eru forráðamenn Real Madríd farnir að íhuga hver gæti tekið við stjórn knattspyrnuliðs félagsins af Frakkanum Zinedine Zidane. 

Real Madríd tapaði tveimur leikjum á nokkrum dögum. Gegn nýliðum Cadiz í deildinni og Shaktar Donetsk í Meistaradeildinni. 

Það eitt og sér getur varla verið nægileg ástæða til að segja Zidane upp störfum sem náð hefur miklum árangri hjá Real. En framundan um helgina er leikurinn gegn erkifjendunum í Barcelona og úrslitin þar gætu ef til vill ráðið nokkru um framtíð Zidane í starfi. Þriðja tapið í röð gæti valdið ólgu hjá félaginu en sigur gegn Barcelona getur fljótt breytt myrkri í birtu. 

Zidane sagði óvænt upp þegar hann var áður í starfi knattspyrnustjóra hjá Real Madríd. Þar af leiðandi velta forráðamenn félagsins fyrir sér arftaka hvort sem er. 

Fyrrverandi leikmaður liðsins, Raúl, stýrir nú varaliði félagsins í b-deildinni en það kallast Real Madríd Castilla. AS fjölmiðlasamsteypan telur að Raúl og Mauricio Pochettino komi helst til greina sem næsti knattspyrnustjóri. Þar kemur jafnframt fram að tapi Real fyrir Barcelona um helgina þá sé forsetinn, Florentino Perez, til alls líklegur. 

Raúl nýtur mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum Real Madríd.
Raúl nýtur mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum Real Madríd. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert