Vonandi næst á dagskrá að verða Evrópumeistari

Sara Björk Gunnarsdóttir er komin til Lyon frá Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir er komin til Lyon frá Wolfsburg. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við franska stórveldið Lyon. Hefur Lyon verið besta félagslið heims undanfarin ár og er Evrópumeistari síðustu fjögurra ára. Þá er liðið með gríðarlega yfirburði í Frakklandi og var franski meistaratitillinn sem liðið vann í vor sá fjórtándi í röð.

„Mér fannst vera kominn tími til að yfirgefa Wolfsburg eftir fjögur ár. Ég vildi fara að gera eitthvað annað en samt halda mér á hæsta stigi fótboltans. Lyon hafði heyrt í mér síðustu tvö ár og sýndi mér enn áhuga, svo mér fannst þetta kjörið tækifæri til að halda áfram að bæta mig og vera áfram að spila með þeim allra bestu,“ sagði Sara í samtali við mbl.is. 

Sara hefur lengi ætlað sér að verða Evrópumeistari, en hún komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Wolfsburg árið 2018 en tapaði þá einmitt gegn Lyon. 

„Það er búið að vera mitt markmið síðan ég var að spila með Rosengård og ég hef alltaf ætlað mér að ná því. Það er enn draumurinn að ná því markmiði. Ég hefði auðvitað viljað það á síðustu fjórum árum með Wolfsburg, það hefði toppað góðan tíma þar. Það er vonandi næst á dagskrá hjá mér að vinna þá keppni,“ sagði Sara en ítarlegra viðtal við hana birtist í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert