Eitt stórt klúður frá A til Ö

Jean-Michel Aulas er afar ósáttur með knattspyrnuyfirvöld í Frakklandi.
Jean-Michel Aulas er afar ósáttur með knattspyrnuyfirvöld í Frakklandi. AFP

Jean-Michel Aulas, forseti franska knattspyrnufélagsins Lyon, segir að franska knattspyrnusambandið hafi gert risastór mistök með því að aflýsa tímabilinu þar í landi. Þá gagnrýnir hann forystu sambandsins harðlega og segir hana sýnt algjöran skort á leiðtogahæfileikum á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst í Frakklandi.

Þegar deildinni var aflýst í apríl var PSG yfirlýstur franskur meistari og Toulouse og Amiens féllu um deild. Frakkar eru hins vegar eina deildin, af fimm stærstu deildum Evrópu, sem ákvað að aflýsa tímabilinu. „Það sem sem átti að gera var að aflýsa keppni tímabundið, eins og var gert á Englandi, Spáni, Þýskalandi og Ítalíu,“ sagði Aulas í samtali við BBC.

„Þegar allt kemur til alls þá var þetta eitt stórt klúður frá A til Ö. Landsmenn þurfa fótboltann til þess að hafa ofan af fyrir sér og núna neyðumst við til þess að horfa á íþróttina í öðrum löndum. Þá er þetta gríðarlegt fjárhagslegt högg fyrir frönsk félög og þau verða lengi að jafna sig á þessu,“ bætti Aulas við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert