„Þakka samherjum og þjálfurum“

Cristiano Ronaldo eftir að hafa skorað sitt 700. mark á …
Cristiano Ronaldo eftir að hafa skorað sitt 700. mark á ferlinum. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo þakkar samherjum sínum fyrir að hafa náð þeim áfanga að skora 700 mörk á ferli sínum.

700. markið hjá Ronaldo leit dagsins í ljós í gærkvöld þegar hann skoraði mark Portúgala úr vítaspyrnu í 2:1 tapi gegn Úkraínu í undankeppni EM.

Ronaldo tók því með ró og sagðist ekki vera mikið að hugsa um þetta þegar hann var spurður um áfangann.

„Það eru ekki allir sem ná þessum tímamótum. Ég þakka mínum samherjum og þjálfurum sem hafa hjálpað mér að verða sá leikmaður sem ég er.

Ég er svekktur að við unnum ekki leikinn en ég er stoltur af liðinu. Ég veit ekki hversu mörg met ég á en núna nýt ég þess bara og þakka þeim sem hjálpuðu mér að ná þessu. Metin koma eðlilega. Ég er ekkert að leita að þeim en þau finna mig,“ sagði Ronaldo í viðtali við netmiðilinn goal.com.

Mörkin 700 hefur Ronaldo skorað í 974 leikjum en til samanburðar hefur Lionel Messi skorað 672 mörk í 828 leikjum.

Ronaldo skoraði 450 mörk fyrir Real Madrid, 118 fyrir Manchester United, hann hefur skorað 32 fyrir Juventus og skoraði 5 mörk fyrir Sporting Lissabon. Mörkin hans fyrir portúgalska landsliðið eru 95 talsins og er hann í öðru sæti yfir markahæstu landsliðsmenn frá upphafi. Sá markahæsti er Ali Daei sem skoraði 109 mörk fyrir Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert