Rekinn fyrir að styðja innrásina í Sýrland

Cenk Sahin.
Cenk Sahin. Ljósmynd/Liga-Zwei.de

Tyrkneski knattspyrnumaðurinn Cenk Sahin hefur verið rekinn frá þýska B-deildarliðinu St.Pauli eftir að hafa lýst yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir Tyrkja í Sýrlandi á Instagram-síðu sinni.

„Cenk Sahin hefur tafarlaust verið leystur undan samningi. Helstu ástæður fyrir ákvörðuninni voru ítrekuð lítilsvirðing hans við gildi félagsins og nauðsyn þess að vernda leikmanninn,“ segir í yfirlýsingu frá St. Pauli.

Þýska félagið hefur heimilað Sahin að æfa og spila með öðru félagi en þessi 25 ára gamli miðjumaður kom til St. Pauli frá tyrkneska liðinu Istanbul Basaksehir árið 2016. Hann hefur spilað 61 leik með liðinu og hefur í þeim skorað sex mörk.

Sahin hefur spilað með öllum yngri landsliðum Tyrkja.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert