Finnar eru skrefinu nær EM

Teemu Pukki skorar annað marka Finna í leiknum í Turku …
Teemu Pukki skorar annað marka Finna í leiknum í Turku í dag. AFP

Finnar eru í góðri stöðu í baráttunni um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Armenum í Turku í dag, 3:0.

Með sigrinum náðu þeir fimm stiga forskoti á Armena og Bosníumenn sem eru í þriðja og fjórða sæti J-riðils en Bosnía spilar við Grikkland á útivelli í kvöld.

Finnar eiga eftir heimaleik við Liechtenstein og útileik við Grikkland, og vinni þeir báða leikina fara þeir á EM. Ítalir hafa þegar unnið riðilinn, eru með 21 stig af 21 mögulegu og eru í heimsókn hjá lærisveinum Helga Kolviðssonar í Liechtenstein í kvöld.

Fredrik Jensen kom Finnum yfir eftir hálftíma leik gegn Armenum. Í seinni hálfleik tók Teemu Pukki, leikmaður enska liðsins Norwich, af skarið og bætt við mörkum á 61. og 88. mínútu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert