Eitt af fjórum bestu félagsliðum heims

Danska landsliðskonan Nadia Nadim verður í eldlínunni með PSG á …
Danska landsliðskonan Nadia Nadim verður í eldlínunni með PSG á Kópavogsvelli á morgun. AFP

„Mér líður vel, liðið virkar ferskt og við erum fullar tilhlökkunar að mæta Breiðabliki á morgun,“ sagði knattspyrnukonan Nadia Nadim, leikmaður PSG, í samtali við mbl.is eftir æfingu franska liðsins á Kópavogsvelli í kvöld.

PSG mætir Breiðabliki í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á  Kópavogsvelli á morgun en franska stórliðið er eitt besta kvennalið heims. PSG sló Sporting Braga frá Portúgal úr leik í 32-liða úrslitum keppninnar, samanlagt 7:0, en fyrri leik liðanna í Portúgal lauk með 7:0-sigri PSG á meðan leiknum í Frakklandi lauk með markalausu jafntefli.

„Ég nokkuð vön svona roki og kulda eins og er á Íslandi á þessum árstíma þar sem ég ólst upp í Danmörku. Það er mun hlýrra í Frakklandi á þessum árstíma en veðrið ætti ekki að hafa of mikil áhrif á okkur á morgun. Um leið og maður byrjar að hlaupa hættir maður að finna fyrir kuldanum en vindurinn getur vissulega haft áhrif á það hvernig við viljum spila. Þær þurfa hins vegar að spila við sömu aðstæður, þetta hefur því áhrif á bæði lið og við getum ekki notað veðrið sem einhverja afsökun ef allt fer á versta veg.“

Nadia Nadim í úrslitaleik Danmerkur og Hollands á EM sumarið …
Nadia Nadim í úrslitaleik Danmerkur og Hollands á EM sumarið 2017. AFP

Pressa að klára einvígið

Nadia Nadim og landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir voru liðsfélagar hjá Portland Thorns á árunum 2016 til 2017. Þær þekkjast vel og eru góðar vinkonur enn þann dag í dag.

„Dagný sendi mér skilaboð eftir dráttinn og var virkilega spennt fyrir því að ég væri á leið til landsins. Ég hefði viljað hitta hana hér á landi en þar sem Portland er á leiðinni í úrslitakeppnina, því miður fyrir mig en sem betur fer fyrir hana, þá er hún í Bandaríkjunum núna. Við ræddum ekki mikið um Breiðablik í hreinskilni sagt en ég þekki nokkra leikmenn liðsins úr íslenska landsliðinu og ég veit fyrir hvað liðið stendur og hvernig fótbolta það vill spila.“

PSG er í efsta sæti frönsku 1. deildarinnar, ásamt Evópumeisturum Lyon, en bæði lið eru með fullt hús stig eftir fimm fyrstu leiki tímabilsins.

„PSG er eitt af fjórum bestu félagsliðum heims í dag myndi ég segja. PSG, Lyon, Wolfsburg, North Carolina og svo er Barcelona að koma til líka. Þetta eru bestu lið í heiminum í dag og franska deildin er klárlega ein af þremur sterkustu deildum í heiminum í dag. Þar eru þrjú lið í sérflokki líkt og í flestum deildum í Evrópu. Það er vissulega meiri samkeppni í bandarísku atvinnumannadeildinni þar sem það eru mörg frábær lið. Leikmenn í frönsku deildinni eru bæði tæknilegir og líkamlega sterkir og þetta er erfið deild að spila í. Fólk ætlast til þess að við vinnum alla leiki og það er þess vegna ákveðin pressa á okkur að vinna á morgun og fara áfram úr þessu einvígi,“ sagði Nadim í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert