Birkir á leið til Al-Arabi

Birkir Bjarnason er að ganga til liðs við Al-Arabi í …
Birkir Bjarnason er að ganga til liðs við Al-Arabi í Katar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er að ganga til liðs við katarska efstudeildarliðið Al-Arabi en það eru fjölmiðlar í Katar sem greina frá þessu. Birkir verður þar með liðsfélagi Arons Einars Gunnarssonar landsliðsfyrirliða en Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, er stjóri Al-Arabi.

Fótbolti.net greinir frá því í kvöld að Birkir muni skrifa undir samning við Al-Arabi sem gildir fram í janúar á næsta ári en hlutverk miðjumannsins verður fyrst og fremst að leysa Aron Einar af hólmi. Aron Einar meiddist illa á ökkla í leik með Al-Arabi í byrjun október og verður hann frá næstu mánuðina.

Birkir hefur verið án félags síðan hann rifti samningi sínum við enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa í júní. Birkir var frábær í landsleikjum Íslands gegn Frökkum og Andorra í undankeppni EM á Laugardalsvelli á dögunum en hann var besti maður vallarsins gegn Frakklandi þar sem heimsmeistararnir fóru með 1:0-sigur af hólmi.

Al-Arabi hefur byrjað tímabilið frábærlega í Katar en liðið er í öðru sæti deildarinnar með 13 stig eftir fyrstu fimm leiki sína. Liðið er taplaust á tímabilinu og á leik til góða á topplið Al-Duhail sem er í efsta sætinu með 14 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert