Mættu með sjö táninga og töpuðu 20:0

Pro Piacenza var aðeins með sjö leikmenn á skýrslu.
Pro Piacenza var aðeins með sjö leikmenn á skýrslu. Ljósmynd/@GiovaAlbanese

Pro Piacenza, botnlið C-deildarinnar á Ítalíu, hefur ekki átt sjö dagana sæla. Félagið er í miklum fjárhagserfiðleikum og búið að missa átta stig vegna þessa. Félagið hefur þurft að gefa síðustu leiki sína, þar sem nánast allir leikmenn félagsins eru búnir að rifta samningi sínum. 

Ítalska knattspyrnusambandið hótaði að reka félagið úr deildarkeppninni, myndi það halda áfram að þurfa að gefa leiki. Forráðamönnum félagsins tókst að smala saman sjö táningum til að skipa leikmannahópinn gegn Cueno, sem er um miðja deild. 

Ellefu leikmenn Cueno léku sér að táningum Pro Piacenza og unnu að lokum 20:0-sigur. Staðan í hálfleik var 15:0 og slökuðu Cueno-menn á eftir leikhlé. Pro Piacenza hefur ekki efni á knattspyrnustjóra og var einn táningsleikmannanna því fyrirliði og þjálfari. 

Leikmenn fengu síðast laun í ágúst á síðasta ári og skuldar félagið minnst 500.000 evrur. Framtíð Pro Piacenza kemur í ljós 11. mars næstkomandi, þegar ítalska knattspyrnusambandið tekur mál félagsins fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert