Rísa risarnir þrír á lappir?

Lionel Messi og félagar hans í Barcelona hefur ekki tekist …
Lionel Messi og félagar hans í Barcelona hefur ekki tekist að vinna í síðustu fjórum leikjum sínum í spænsku 1. deildinni. AFP

Þrír risar í evrópskum fótbolta, Barcelona, Real Madrid og Bayern München, eiga það sameiginlegt að gengi þeirra síðustu vikurnar hefur verið dapurt og það er saga til næsta bæjar að ekkert þeirra er í efsta sæti í deildarkeppninni.

Evrópumeistarar Real Madrid hafa spilað fjóra leiki í röð án sigurs og það sem meira er, liðinu hefur ekki tekist að skora í þessum fjórum leikum. Eftir 1:0 sigur á Espanyol fyrir tæpum mánuði síðan hefur Real Madrid tapað 3:0 fyrir Sevilla, gert markalaust jafntefli á móti Atlético Madrid, tapað fyrir CSKA Moskva 1:0 í Meistaradeildinni og með sömu markatölu fyrir Deportivo. Real Madrid, sem fær Levante í heimsókn í fyrramálið, er í fjórða sæti í deildinni.

Spánarmeistarar Barcelona hafa í síðustu fjórum deildarleikjum sínum gert þrjú jafntefli, gegn Girona, Bilbao og  Valencia og tapað fyrir Alaves. Barcelona, tekur á móti Sevilla í deildinni á Camp Nou á morgun, er í öðru sæti deildarinnar.

Bayern München hefur í síðustu fjórum leikjum sínum gert jafntefli við Augsburg í deildinni og Ajax í Meistaradeildinni og tapað fyrir Herthu Berlin og Borussia Mönchengladbach. Bayern, sækir Wolfsburg heim á morgun, er í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert