Sara berst líka á markalistanum

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur skorað sex mörk í Meistaradeildinni, fjögur …
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur skorað sex mörk í Meistaradeildinni, fjögur mörk í þýsku 1. deildinni og tvö í þýsku bikarkeppninni á leiktíðinni. Ljósmynd/Heimasíða Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir fer inn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á fimmtudaginn sem ein af markahæstu leikmönnum keppninnar á leiktíðinni.

Sara hefur skorað sex mörk fyrir Wolfsburg í þeim átta leikjum sem liðið hefur spilað í keppninni til þessa, en nú er aðeins eftir úrslitaleikurinn við Lyon. Hún á von um að enda sem 2. eða 3. markahæsti leikmaður keppninnar.

Hin norska Ada Hegerberg hjá Lyon er örugg um að enda markahæst í keppninni. Hún hefur skorað 14 mörk, tvöfalt fleiri en næsta kona á lista sem er hin danska Pernille Harder, liðsfélagi Söru. Sara er í 3. sætinu en Camille Abily hjá Lyon og Katerina Svitková koma næstar með 5 mörk. Svitková getur ekki bætt í sarpinn þar sem lið hennar, Slavia Prag, er úr leik.

Sara skoraði þrjú marka sinna í einvíginu við Fiorentina frá Ítalíu sem Wolfsburg vann samtals 7:3. Hún hafði áður skorað eitt mark gegn Atlético Madrid í 32-liða úrslitum, og skoraði einnig eitt mark gegn Slavia Prag í 8-liða úrslitum. Mikilvægasta mark Söru var svo í undanúrslitaeinvíginu við Chelsea. Liðin mættust í Lundúnum í fyrri leiknum og komst Chelsea yfir strax á 2. mínútu, en Sara jafnaði metin korteri síðar. Wolfsburg vann einvígið að lokum af öryggi, 5:1.

Sara hefur auk þess skorað fjögur mörk fyrir Wolfsburg í þýsku 1. deildinni, sem liðið hefur þegar unnið, og tvö mörk í bikarkeppninni sem liðið vann fjórða árið í röð um liðna helgi.

Margrét Lára oftast markadrottning

Þess má geta að frá upphafi Meistaradeildarinnar, sem rekja má til ársins 2001, hefur Margrét Lára Viðarsdóttir oftast allra orðið markadrottning hennar. Margrét Lára varð nefnilega þrívegis markadrottning sem leikmaður Vals, en hún skoraði 11 mörk tímabilið 2005-06, níu mörk tímabilið 2007-08 og svo 14 mörk ári síðar. Valur náði lengst í 8-liða úrslit haustið 2005 en féll þar úr leik.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert