Þjálfari Besiktas grýttur

Senol Gunes heldur um höfuðið.
Senol Gunes heldur um höfuðið. AFP

Tyrkneska stórliðið Fenerbache á væntanlega yfir höfði sér refsingu vegna framkomu stuðningsmanna þess, eftir að hætta þurfti leik liðsins gegn Besiktas í undanúrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. 

Þjálfari Besiktas, Senol Gunes, slasaðist þegar hann fékk aðskotahlut í höfuðið sem grýtt var af áhorfendapöllunum en leikurinn fór fram á heimavelli Fenerbache. Stuðningsmenn heimaliðsins höfðu átt í einhverjum útistöðum við varamenn Besiktas áður en Gunes slasaðist. Liðin eru bæði frá höfuðborginni Istanbul og rígurinn talsverður á milli liðanna.

Gunes féll við og var fluttur á sjúkrahús vegna höfuðáverkanna. Leikurinn var flautaður af og var staðan þá 0:0 en liðin gerðu 2:2 jafntefli í fyrri leiknum á heimavelli Besiktas. Pepe, gamli vandræðagemlingurinn hjá Real Madrid, var rekinn af velli eftir aðeins hálftíma leik en hann leikur nú með Besiktas. 

Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 árs landsliðsins, lék með Besiktas á sínum tíma og varð tyrkneskur meistari með liðinu. Tveir íslenskir landsliðsmenn leika nú í Tyrklandi, Ólafur Ingi Skúlason og Theodór Elmar Bjarnason.  

Senol Gunes heldur um höfuðið.
Senol Gunes heldur um höfuðið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert