Man Utd vann eftir vítaspyrnukeppni

Leikmenn Manchester United fagna marki Jesse Lingard gegn Real Madrid …
Leikmenn Manchester United fagna marki Jesse Lingard gegn Real Madrid í kvöld. AFP

Manchester United og Real Madrid skildu jöfn, 1:1, eftir venjulegan leiktíma þegar liðin mættust í æfingaleik sem fram fór á Santa Clara-vellinum í San Francisco í Bandaríkjunum í kvöld. Jesse Lingard kom Manchester United yfir undir lok fyrri hálfleiks, en Casemiro jafnaði metin fyrir Real Madrid með marki úr vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik. Manchester United tryggði sér síðan sigur í leiknum eftir vítaspyrnukeppni. 

Það var Anthony Martial sem var arkitektinn að marki Lingards, en franski framherjinn lék einkar laglega á þrjá varnarmenn Real Madrid áður en hann lagði boltann á Lingard sem skoraði með skoti af stuttu færi. 

Vítaspyrnan sem Casemiro skoraði úr var dæmd á Victor Lindelof fyrir að brjóta klaufalega á Theo Hernandez innan vítateigs Manchester United. Casemiro skoraði af feikilegu öryggi úr vítaspyrnunni, en hann skaut föstu skoti í mitt markið. 

Gripið var til þess að útkljá úrslitin í vítaspyrnukeppni. Leikmönnum liðanna voru nokkuð mislagðir fætur í vítaspyrnukeppninni. Fyrstu fjórar vítaspyrnur liðanna fóru forgörðum. Svo fór að Manchester United fór með sigur af hólmi, 2:1, í vítaspyrnukeppninni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert