Úrvalslið samningslausra

Cristiano Ronaldo og Pepe fagna marki í Álfukeppninni sem nú …
Cristiano Ronaldo og Pepe fagna marki í Álfukeppninni sem nú stendur yfir. Pepe er laus allra mála hjá Real Madrid. AFP

Óhætt er að segja að nokkrir frábærir leikmenn standi knattspyrnufélögum Evrópu til boða í sumar án þess að þá þurfi að kaupa. The Guardian hefur tekið saman úrvalslið samningslausra.

Í markinu stendur Spánverjinn Iker Casillas, en þessi 36 ára gamli fyrrverandi leikmaður Real Madrid er án samnings eftir tvö ár hjá Porto í Portúgal.

Í vörninni má finna Portúgalann Pepe, sem leikið hefur með Real Madrid síðustu ár en er núna í sigti PSG, Besiktas og fleiri félaga.

Annar miðvörður, John Terry, er án félags eftir að ljóst varð að hann fengi ekki nýjan samning hjá Englandsmeisturum Chelsea. Bæði Aston Villa og Birmingham hafa boðið honum samning til eins árs, samkvæmt frétt Sky Sports í dag.

Vinstri bakvörðurinn Gaël Clichy verður ekki áfram hjá Manchester City, og hið sama má segja um Bacary Sagna og Jesús Navas. Sagna er þó ekki í úrvalsliði The Guardian.

Þýski miðjumaðurinn Jan Kirchhoff er á förum frá Sunderland og Sulley Muntari er án samnings eftir dvöl hjá Pescara á Ítalíu.

Zoran Tosic, fyrrverandi kantmaður Manchester United, er án samnings eftir sjö ár hjá CSKA Moskvu en hann er þrítugur. Hann gæti verið á leið til Galatasaray eða Besiktas í Tyrklandi.

The Guardian er svo með þá Rachid Ghezzal, Richmond Boakye Yiadom og Zlatan Ibrahimovic fremsta.

Ghezzal er örvfættur kantmaður, 25 ára gamall, og sagður í sigti AC Milan, Everton og Roma, en hann lék með Lyon.

Yiadom er frá Gana og skoraði 16 mörk í 19 leikjum fyrir Rauðu stjörnuna í Serbíu í vetur sem lánsmaður.

Zlatan átti svo frábært tímabil með Manchester United þar til að hann sleit krossband í hné og ólíklegt er að hann semji við nýtt félag fyrr en eftir að tímabilið er hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert