Spalletti farinn frá Roma

Luciano Spalletti.
Luciano Spalletti. AFP

Ítalska knattspyrnuliðið Roma hefur sagt skilið við þjálfarann Luciano Spalletti en félagið greindi frá þessu á vef sínum í dag.

Spalletti þjálfaði Roma frá 2005 til 2009 en hann tók svo aftur við þjálfun liðsins í janúar eftir brottrekstur Rudi Garcia. Undir stjórn Spalletti hafnaði Roma í öðru sæti ítölsku A-deildarinnar.

Þrátt fyrir ágætan árangur var Spalletti ekki vinsæll á meðal stuðningsmanna Roma sem margir hverjir bauluðu þegar nafn hans var lesið fyrir leikinn gegn Genoa. Þar voru þeir að lýsa yfir óánægju sinni með hversu lítið goðsögnin Francesco Totti fékk að spila á tímabilinu en Totti lék kveðjuleik sinn með Roma í umræddum leik og kvaddi stuðningsmenn liðsins með hjartnæmum hætti.

Ítalskir fjölmiðlar eru strax farnir að orða Spalletti við Inter Mílanó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert