Góður sigur Emils og félaga

Emil Hallfreðsson í leik með Udinese.
Emil Hallfreðsson í leik með Udinese. AFP

Emil Hallfreðsson og félagar í Udinese styrktu stöðu sína í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag með því að sigra Cagliari á heimavelli, 2:1.

Emil lék allan leikinn á miðjunni hjá Udinese sem komst í 2:0 seint í leiknum þegar Stipe Perica og Gabriele Angella skoruðu með stuttu millibili. Marco Borriello minnkaði muninn fyrir Cagliari undir lokin.

Udinese er í 11. sæti af 20 liðum í deildinni með 43 stig og komst fimm stigum á undan Cagliari sem er í 12. sætinu með 38 stig. Udinese siglir lygnan sjó í síðustu fimm umferðum deildarinnar, er ekki í neinni fallhættu og Evrópusætin eru of langt undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert