„Það versta sem gat gerst“

Leikmenn og þjálfari Dortmund eftir leikinn gegn Mónakó í gærkvöld.
Leikmenn og þjálfari Dortmund eftir leikinn gegn Mónakó í gærkvöld. AFP

Thomas Tuchel, þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund, var ekki sáttur með að rútuferðinni sem flutti liðið á Mónakóleikvanginn í gærkvöld hafi verið seinkað.

Viku eftir sprengjuárásina sem gerð var á liðsrútu Dortmund fyrir fyrri leikinn á móti Mónakó í Meistaradeildinni þurfti Dortmund-liðið að bíða í rútunni í gær að skipun lögreglunnar. Förinni á Stade Louis-leikvanginn var seinkað og leikurinn hófst fimm mínútum síðar en hann átti að hefjast.

„Það voru allir komnir í rútuna og lögreglan var tilbúin að fylgja okkur á völlinn en þá var okkur sagt að við þyrftum að bíða. Við biðum í einhverjar 16 til 17 mínútur og þegar við reyndum að finna út hvers vegna var okkur sagt að það væri af öryggisástæðum.

Þetta var það versta sem gat gerst viku eftir árásina. Allir voru í rútunni tilbúnir til að fara en okkur var ekki leyft að gera það. Aðeins rúmum einum klukkutíma fyrir leikinn var okkur ekki gert kleift að hugsa um fótbolta og það var ekki tilvalið,“ sagði þjálfari Dortmund.

Dortmund tapaði leiknum gegn Mónakó, 3:1, og samanlagt, 6:3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert