Það eru 60% líkur á að við vinnum

Dani Alves varnarmaður Juventus og fyrrverandi leikmaður Barcelona.
Dani Alves varnarmaður Juventus og fyrrverandi leikmaður Barcelona. AFP

Leikmenn og þjálfari Juventus eru hæfilega bjartsýnir á að komast áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu þrátt fyrir að vera 3:0 yfir í einvígi sínu við Barcelona.

Liðin mætast í seinni leik sínum á Camp Nou í kvöld og þurfa Börsungar á svipuðu kraftaverki að halda og þegar þeir slógu PSG út í 16 liða úrslitum, eftir að hafa tapað útileiknum 4:0.

„Líkurnar á að við komumst áfram? Þær eru í augnablikinu svona 60%, en við berum mikla virðingu fyrir Barcelona,“ sagði Dani Alves, leikmaður Juventus og fyrrverandi leikmaður Barcelona. „Það verður gaman að koma aftur á Camp Nou. Það er skrýtið að snúa þangað aftur og þetta er fyrsta tækifæri mitt til þess, en ég hugsa ekkert um fortíðina núna. Þegar ég spila fyrir mitt lið gef ég alltaf 100%,“ sagði Alves.

Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, segir að liðið verði að sækja til sigurs í kvöld í stað þess að verja forskot sitt:

„Við verðum bara að sleppa því að hugsa um fyrri leikinn. Við verðum að spila eins og að við verðum að vinna leikinn, og við verðum að gera það í 95 mínútur,“ sagði Allegri. Hann hefur ekki áhyggjur af frammistöðu dómara leiksins, eftir að dómar féllu Barcelona í hag í 16 liða úrslitunum:

„Þessi dómari er í hæsta gæðaflokki og ég ber mikla virðingu fyrir honum. Hann verður með á nótunum á morgun,“ sagði Allegri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert