Lögregla þurfti að fjarlægja leikmenn Bayern

Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. AFP

Kalla þurfti til lögreglu til að fjarlægja þrjá leikmenn þýska meistaraliðsins Bayern München út úr búningsherbergi dómaranna eftir leik Real Madrid og Bayern München sem áttust við í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Santiago Bernabeu-vellinum í Madrid í gærkvöld.

Liðmenn Bayern voru sótillir út í dómara leiksins en tvö af mörkunum sem Cristiano Ronaldo skoraði voru rangstöðumörk og brottrekstur Arturo Vidal var rangur.

Robert Lewandowski, Arturo Vidal og Thiago vildu eiga orðastað við ungverska dómarann Viktor Kassai og lögðu leið sína inn í búningsherbergi dómaranna. Spænskur blaðamaður segir að leikmennirnir hafi hellt sér yfir Kassai og aðstoðarmenn hans og kenndu þeim um tapið.

Þessi ferð leikmannanna í búningsklefann gæti dregið dilk á eftir en ekki er ósennilegt að Kassai sendi aganefnd UEFA skýrslu um atvikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert