„Hættið að púa á mig“

Cristiano Ronaldo fagnar einu af mörkum sínum í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar einu af mörkum sínum í gær. AFP

Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo biðlar til stuðningsmanna Real Madrid um að þeir hætti að púa á hann á heimaleikjum liðsins.

Ronaldo kom sínum mönnum til bjargar enn og aftur í gærkvöld þegar hann skoraði þrennu í 4:2 sigri gegn Bayern München í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Þegar Ronaldo fullkomnaði þrennuna setti hann fingur á varir sínar þar sem hann kom þeim skilaboðum til þeirra að þeir hættu að púa á hann en þeir höfðu gert það fyrr í leiknum og í fleiri leikjum á tímabilinu.

„Ég er ekki að biðja þá um að nefna götur eftir mér heldur vil ég aðeins að þeir hætti að púa á mig hérna. Ég vil að þeir hætti því þar sem ég geri alltaf mitt besta og þótt ég skori ekki þá reyna ég eftir fremsta megni að hjálpa liðinu,“ sagði Ronaldo við spænsku sjónvarpsstöðina Antena 3 eftir leikinn í gær.

Ronaldo rauf 100 marka múrinn í Meistaradeildinni með þrennunni sem hann skoraði en hann hefur nú skorað 101 mark og er sá markahæsti í sögu hennar. 85 markanna hefur Ronaldo skorað fyrir Real Madrid frá því hann kom til liðsins frá Manchester United árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert