„Þetta var 10 á móti 14“

Leikmenn Bayern München fagna markinu sem kom þeim í 2:1 …
Leikmenn Bayern München fagna markinu sem kom þeim í 2:1 forystu gegn Real Madrid í gærkvöld. AFP

Thomas Müller, framherji þýska meistaraliðsins Bayern München, vandaði ekki dómurunum kveðjurnar eftir fall liðsins úr Meistaradeildinni í gærkvöld þegar tapaði fyrir Real Madrid, 4:2, í framlengdum leik.

„Ef þú horfir á hvernig hlutirnir gengu fyrir sig þá er það mjög erfitt þegar þú spilar 10 á móti 14. 2:2 jöfnunarmarkið var það versta. Aðstoðardómarinn hafði skýra sýn. Þetta atvik drap okkur,“ sagði Müller eftir leikinn en tvö af þremur mörkunum sem Cristiano Ronaldo skoraði voru rangstöðumörk og brottrekstur Arturo Vidal var rangur.

„Við vorum í góðu andlegu formi þegar við náðum 2:1 forystu og vorum enn með 11 leikmenn inni á vellinum. En þá tóku dómararnir vindinn úr seglum okkar. Þú getur ekki bara farið heim og sagt að hlutir eins og þessir gerast eftir það sem gerðist hér í kvöld,“ sagði Müller.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert