Heimsmeistarinn endaði tímabilið með sigri

Heimsmeistarinn Max Verstappen sigri hrósandi eftir kappakstur dagsins.
Heimsmeistarinn Max Verstappen sigri hrósandi eftir kappakstur dagsins. AFP/Karim Sahib

Hollendingurinn Max Verstappen kom fyrstur í mark í síðasta kappakstri tímabilsins í Formúlu 1. Keppnin fór fram í Abu Dhabi í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.

Verstappen hafði tryggt sér heimsmeistaratitilinn fyrir nokkru síðan og var því að litlu að keppa fyrir hann. Hann byrjaði á ráspól í dag og lét forystuna aldrei af hendi.

Charles Leclerc kom annar í mark í Ferrari-bíl sínum og liðsfélagi Verstappen hjá Red Bull, Sergio Pérez þriðji.

Fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel kom 10. í mark en þetta var hans síðasti kappakstur á ferlinum. Lewis Hamilton var á góðri leið að ná fjórða sætinu en þegar einungis örfáir hringir voru eftir bilaði Mercedes-bíllinn hans og hann varð að hætta. Er þetta því fyrsta tímabil þessa magnaða ökumanns sem hann vinnur enga keppni á árinu.

Verstappen er eins og áður kom fram heimsmeistari en hann endaði með lang flest stig. Charles Leclerc endar annar og Pérez þriðji, með þremur stigum minna en Leclerc. Í keppni bílasmiða vann Red Bull sannfærandi sigur en Ferrari endaði í öðru sæti og Mercedes í því þriðja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert