Rifta samningi ökumanns vegna kynþáttaníðs

Juri Vips verður ekki vara- og æfingaökumaður Red Bull áfram.
Juri Vips verður ekki vara- og æfingaökumaður Red Bull áfram. AFP/Dan Mullan

Samningi eist­neski akst­ur­skappans Juri Vips, vara- og æf­inga­ökumanns hjá Red Bull í Formúlu 1, hefur verið rift eft­ir að hann gerðist upp­vís að kynþátta­for­dóm­um og for­dóm­um í garð sam­kyn­hneigðra.

Hinn 21 árs gamli Vips var að streyma tölvu­leik ásamt liðsfé­laga sín­um Liam Law­son þegar hann lét óviðeig­andi orð falla á mis­mun­andi tíma­punkt­um í streym­inu, sem þóttu til marks um kynþátta­for­dóma og for­dóma í garð sam­kyn­hneigðra.

Red Bull setti hann tafarlaust í bann á meðan liðið rannsakaði atvikið og hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að rifta samningi Vips eftir að rannsókn lauk.

„Í kjölfar rannsóknar á atviki á netinu sem tengdist Juri Vips hefur Oracle Red Bull Racing ákveðið að rifta samningi Juris sem vara- og æfingaökumanns. Liðið samþykkir ekki nokkra tegund kynþáttaníðs,“ sagði í yfirlýsingu frá Red Bull.

Rannsóknin hefur þótt formsatriði þar sem mynd- og hljóðupptaka var til af Vips að láta orðin falla og baðst hann auk þess afsökunar í síðustu viku þegar Red Bull setti hann í bann.

„Svona orðanotk­un er full­kom­lega óá­sætt­an­leg og end­ur­spegl­ar ekki þau gildi sem ég stend fyr­ir.

Ég sé sár­lega eft­ir gjörðum mín­um og þetta er ekki það for­dæmi sem ég vil setja. Ég mun veita fulla sam­vinnu í rann­sókn­inni,“ skrifaði Vips á instagramaðgangi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert