Eisti í bann vegna níðs

Juri Vips er vara- og æfingaökumaður Red Bull.
Juri Vips er vara- og æfingaökumaður Red Bull. AFP/Jim Watson

Eistneski aksturskappinn Juri Vips, vara- og æfingaökumaður Red Bull-liðsins í Formúlu 1 hefur verið settur í bann af liðinu eftir að hann gerðist uppvís að kynþáttafordómum og fordómum í garð samkynhneigðra.

Hinn 21 árs gamli Vips var að streyma tölvuleik ásamt liðsfélaga sínum Liam Lawson þegar hann lét óviðeigandi orð falla á mismunandi tímapunktum í streyminu, sem þóttu til marks um kynþáttafordóma og fordóma í garð samkynhneigðra.

Red Bull fordæmdi orðanotkunina og setti hann strax í bann sem gildir þar til liðið hefur rannsakað málið til hlítar.

Vips baðst afsökunar á ummælum sínum á instagramaðgangi sínum. Þar skrifaði hann:

„Svona orðanotkun er fullkomlega óásættanleg og endurspeglar ekki þau gildi sem ég stend fyrir.

Ég sé sárlega eftir gjörðum mínum og þetta er ekki það fordæmi sem ég vil setja. Ég mun veita fulla samvinnu í rannsókninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert