Ökuþór sleginn til riddara

Lewis Hamilton ásamt móður sinni Carmen Lockhart eftir athöfnina í …
Lewis Hamilton ásamt móður sinni Carmen Lockhart eftir athöfnina í dag. AFP

Aksturskappinn Lewis Hamilton var sleginn til riddara af Karli Bretaprins við hátíðlega athöfn í Windsor-kastala í Berkshire á Englandi í dag.

Hamilton, sem er 36 ára gamall, er sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og er sigursælasti ökuþór í sögu keppninnar ásamt Michael Schumacher.

Ökuþórinn hefði getað skráð sig á spjöld sögunnar sem sá sigursælasti í sögu Formúlu 1 um síðustu helgi en hann hafnaði í öðru sæti í Abú Dabí-kappakstrinum eftir mikla dramatík.

Keppnin í Abú Dabí var jafnframt lokakeppni tímabilsins og heimsmeistaratitillinn fór að endingu til Max Verstappen sem var að fagna sínum fyrsta sigri í Formúlu 1. 

Hamilton er fjórði ökumaðurinn í Formúlu 1 sem er sleginn til riddara en fyrir höfðu þeir Sir Jack Brabham, Sir Stirling Moss og Sir Jackie Stewart allir verið sæmdir riddaratign.

Hann er fyrsti ökuþórinn sem er sæmdur riddaratign á meðan ferill hans er enn í fullum gangi en Hamilton skrifaði undir tveggja ára samning við aksturslið Williams fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert