Snýr aftur í formúluna eftir hræðilegt slys

Bíll Romain Grosjean alelda eftir slysið.
Bíll Romain Grosjean alelda eftir slysið. AFP

Franski ökumaðurinn Romain Grosjean mun snúa aftur í formúlu-1, sjö mánuðum eftir að hafa lent í hræðilegu slysi þar sem hann slapp á ótrúlegan hátt úr alelda bíl sínum.

Grosjean hafði látið hafa eftir sér að hann vildi ekki að ferli hans í formúlu-1 myndi ljúka á þennan hátt, með árekstri.

Grosjean mun keyra Mercedes-bíl Lewis Hamiltons á æfingu fyrir kappakstur á Circuit Paul Ricard brautinni í Frakklandi í lok júní. 

Slysið sem Grosjean, sem keyrir venjulega fyrir Haas-liðið, lenti í átti sér stað á fyrsta hring í kappakstri í Barein í nóvember síðastliðnum. Bíll hans skall þá á öryggisvegg á 225 kílómetra hraða, brotnaði í tvennt, festist í grindverki og varð fljótlega alelda.

„Ég sagði sjálfum mér að ég yrði að komast út. Ég setti hendurnar á grind bílsins og fann þær brenna. Ég komst út og fann svo einhvern toga í búninginn minn. Þá vissi ég endanlega að ég væri sloppinn,“ sagði Grosjean nokkrum dögum eftir slysið.

Romain Grosjean.
Romain Grosjean. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert