Bottas í sérflokki

Sebastian Vettel (t.v.) og Lewis Hamilton glíma í kappakstrinum í …
Sebastian Vettel (t.v.) og Lewis Hamilton glíma í kappakstrinum í Suzuka í morgun. AFP

Finnski ökumaðurinn Valtteri Bottas hjá Mercedes var í þessu að vinna japanska kappaksturinn í Suzuka. Sebastian  Vettel á Ferrari hafði svo betur í jafnri og tvísýnni rimmu síðustu 15 hringina um annað sæti við Lewis Hamilton á Mercedes.

Með sigri Bottas og þriðja sæti Hamiltons hefur Mercedesliðið landað heimsmeistaratitli bílsmiða í formúlu-1 þegar enn eru eftir fjögur mót á keppnistíð ársins.

Segja  má að Bottas hafi drottnað í Suzuka og lagðist keppnisherfræðin betur fyrir honum en Hamilton. Var hann 15 sekúndum á undan Hamilton. Sigur er sá þriðji á árinu, hina fyrri vann Bottas í Bakú í Azerbaijan og í Melbourne í Ástralíu.

Ferrarimenn hófu keppni hlið við hlið á fremstu rásröð en klúðruðu ræsingunni. Vettel þjófstartaði og neyddist til að kippa bílnum sekúndubrot úr gír en sakir þess missti hann Bottas fram úr sér á fyrstu metrunum og refsaði þannig sjálfum sér fyrir mistökin. Þegar inn í fyrstu beygju kom brotnaði svo framvængur af bíl Charles Leclerc við samstuð þeirra Max Verstappen á Red Bull.

Vettel hélt öðru sætinu í mikilli stöðubaráttu á fyrsta hring en vængbrotið leiddi til ótímabærs stopps fyrir Leclerc. Hann endaði í sjötta sæti en Verstappen neyddist til að hætta eftir um 15 hringi. Ákváðu dómarar kappakstursins fyrst að ekkert þyrfti að bregðast við árekstrinum en skiptu síðar um skoðun og frestuðu að taka á málinu þar til eftir kappaksturinn.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Alexander Albon á Red Bull, Carlos Sainz á McLaren, Leclerc, Daniel Ricciardo á Renault, Pierre Gasly á Toro Rosso, Nico Hülkenberg á Renault og Lance Stroll á Racing Point.

Valtteri Bottas sigri hrósandi í Suzuka.
Valtteri Bottas sigri hrósandi í Suzuka. AFP
Mistök Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc (t.h.) í byrjun …
Mistök Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc (t.h.) í byrjun reyndust Ferrarimönnunum dýrkeypt. AFP
Frá ræsingunni í Suzuka. Bottas fremstur, þá Vettel, Leclerc, Verstappen …
Frá ræsingunni í Suzuka. Bottas fremstur, þá Vettel, Leclerc, Verstappen og Hamilton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert