Hamilton öruggur með sigurinn

Frá upphafi kappakstursins í Sjanghæ.
Frá upphafi kappakstursins í Sjanghæ. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna Kínakappaksturinn í Sjanghæ og annar varð liðsfélagi hans Valtteri Bottas, sem hóf keppni af ráspól en missti Hamilton fram úr sér með slakari ræsingu. Þriðji varð Sebastian Vettel á Ferrari.

Hamilton ók af öryggi alla leið  og var aldrei ógnað að heitið gæti í þessum þúsundasta kappakstri formúlu-1. Með sigrinum  hefur fyrstu þremur mótum ársins lokið með tvöföldum sigri Mercedes. 

Vettel missti sinn liðsfélaga, Charles Leclerc einnig fram úr sér á fyrstu metrunum. Á 11. hring vék Leclerc að fyrirmælum liðsstjóranna til að gefa Vettel möguleika á að ná Bottas. Allt kom fyrir ekki því Ferrarifákinn skorti hraða til að hafa við silfurörvar Mercedes.

Þessi skipti stuðluðu hins vegar að því að Max Verstappen á Red Bull komst upp á milli ökumanna Ferrari og varð fjórði og Leclerc fimmti.

Keppi um sæti varð meiri eftir því sem dró aftur eftir bílaröðinni. Pierre Gasly á Red Bull varð sjötti sem er hans besta í ár og Daniel Ricciardo á Renault sjöundi en þar með hefur hann landað sínum fyrstu stigum í ár. Liðsfélagi hans Nico Hülkenberg var framar í röðinni meðan hans naut við en vélarbilun stöðvaði hann í förum.

Sergio Perez á Racing Point varð áttundi eftir langa rimmu við Kimi Räikkönen á Alfa Romeo. Tíunda og síðasta stigasæti kom í hlut Alexanders Albon á Toro Rosso.

Með sigrinum eykur Hamilton forskot sitt í stigakeppninni um titil ökumanna. Drottnun þeirra Bottas í mótum ársins endurspeglast í stigastöðunni. Hamilton er með 68 stig, Bottast 62, Verstappen 39, Vettel 37 og Leclerc 36. Langt er svo í næstu menn því Gasly er í sjötta sæti með og Räikkönen með 12 stig í því sjöunda.

Í keppni liðanna er Mercedes með 130 stig eftir þjrú mót, Ferrari 73 og Red  Bull 52. Alfa Romeo og  Renault eru með 12 stig hvort lið.

Pierre Gasly var lengstum einmanna á ferð í sjötta sæti. Þegar um þrír hringir voru eftir brugðu liðsmenn á það ráð að kalla hann inn að bílskúr til dekkjaskipta svo hann gæti freistað þess að setja hraðasta hring mótsins og þar með hlotið aukastigið sem í boði er í hverjum kappakstri fyrir hraðasta hringinn. Heppnaðist það uppátæki.

Lewis Hamilton hampar sigurlaununum í Sjanghæ.
Lewis Hamilton hampar sigurlaununum í Sjanghæ. AFP
Lewis Hamilton veifar til áhorfenda skömmu fyrir kappaksturinn í Sjanghæ.
Lewis Hamilton veifar til áhorfenda skömmu fyrir kappaksturinn í Sjanghæ. AFP
Stuðningsmenn Lewis Hamilton fagna sínum manni í Sjanghæ í morgun.
Stuðningsmenn Lewis Hamilton fagna sínum manni í Sjanghæ í morgun. AFP
Lewis Hamilton mundar myndavélina á heiðurshring ökumanna í Sjanghæ í …
Lewis Hamilton mundar myndavélina á heiðurshring ökumanna í Sjanghæ í morgun. AFP
Sebastian Vettel átti líka sína stuðningsmenn í stúkunum í Sjanghæ.
Sebastian Vettel átti líka sína stuðningsmenn í stúkunum í Sjanghæ. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert