Bottas tók ráspólinn

Valtteri Bottas sinnir aðdáanda í Sjanghæ í morgun.
Valtteri Bottas sinnir aðdáanda í Sjanghæ í morgun. AFP

Valtteri Bottas á Mercedes var í þessu að vinna ráspól kínverska kappakstursins í Sjanghæ. Er það fyrsti póll hans á árinu en sá sjöundi frá upphafi. Annar og aðeins 23 þúsundustu úr sekúndu á eftir varð liðsfélagi hans Lewis Hamilton.

Ökumenn Ferrari fengu ekki komið í veg fyrir að Mercedes hreppti fremstur rásröðina fyrir morgundaginn. Sebastian Vettel var 0,301 lengur í förum en Bottas og  Charles Leclerc 0,318 sekúndum. Bottas er þriðji ráspólshafinn í jafn mörgum mótum í ár.

Fremstu 10 bílarnir raðast óvenjulega upp. Á hverri rásröð sitja liðsfélagar; Mercedesmennirnir á þeirri fremstu, Ferrarimenn á annarri rásröð, Max Verstappen og Pierre Gasly á Red Bull á þeirri þriðju, Daniel Ricciardo og Niko Hülkenberg á Renault  á þeirri fjórðu og Kevin Magnussen og  Romain Grosjean á Haas á þeirri fimmtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert