Hamilton toppar báðar æfingarnar

Lewis Hamilton á Mercedes ók hraðast á báðum æfingum dagsins í Suzuka en þar fer japanski kappaksturinn fram um helgina. Á báðum æfingum ók liðsfélagi hans Valtteri Bottas næsthraðast.

Hamilton var rúmlega 0,4 sekúndum fljótari í förum en Bottas á báðum æfingum og Sebastian Vettel á Ferrari var rúmum 0,8 sekúndum lengur með hringinn á seinni æfingunni. Á henni setti Max Verstappen fjórða besta tímann en var rúmri sekúndu á eftir Hamilton.

Á fyrri æfingunni varð Daniel Ricciaro þriðji og tæpum 0,7 sekúndum frá toppsætinu. Á henni voru ökumenn Ferrari rúmum 0,9 sekúndum lengur í förum en Hamilton.

Hringtímar ökumanna voru ögn hraðari á seinni æfingunni og jókst þá bilið aftur eftir röðinni.  Á þeirri fyrri átti Daniel Ricciardo á Red Bull þriðja besta tíman, Kimi Räikköen þann fjórða besta, liðsfélagi hans Sebastian Vettel þann fimmta besta og sjötta besta hringinn átti Max Verstappen á Red Bull. 

Sömu ökumenn urðu í sætum þrjú til sex á báðum æfingum en á seinni æfingunni varð röð þeirra: Vettel, Verstappen, Räikkönen og Ricciardo.

Esteban Ocon á Force India varð í sjöunda sæti á báðum æfingum og landi hans Romain Grosjean á Haas í áttunda sæti á báðum.

Í níunda og tíunda sæti á fyrri æfingunni urðu Charles Leclerc á Sauber og  Pierre Gasly á Toro Rosso. Á seinni æfingunni settust í þau sæti Marcus Ericsson á Sauber og Brendon Hartley á Toro Rosso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert