Hamilton aftur fljótastur

Lewis Hamilton á Mercedes ók hraðast á seinni æfingu dagsins í Le Castellet-brautinni í Suður-Frakklandi eins og á þeirri fyrri. Í næstu tveimur sætum urðu Daniel Ricciardo og Max Verstappen á Red Bull.

Yfirburðir Hamiltons voru miklir því Ricciardo og Verstappen voru 0,7 sekúndum lengur  með hringinn og tíundi maður var tveimur sekúndum lengur í förum. Reyndar virtist liðsfélagi Hamiltons, Valtteri Bottast, standa honum snúning framan af en síðan varð hann að horfa á seinni helming æfingarinnar úr bílskúr sínum vegna bilunar.

Athygli vekur að ökumenn Ferrari voru sekúndu lengur með sinn besta hring en Hamilton.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel á Ferrari, Romain Grosjean á Haas, Bottas, Fernando Alonso a McLaren, Kevin Magnussen á Haas og Pierre Gasly á Toro Rosso.

Um miðbik æfingarinnar snarsnerist bíll Sergio Perez af miklu krafti eftir að vinstra afturhjólið brotnaði og sleit sig fyrirvaralaust frá bílnum.

Svíinn Marcus Ericsson á Sauber gat ekki tekið þátt í seinni æfingunni þar sem ekki hafði tekist að endurbyggja bílinn eftir óhapp hans á morgunæfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert