Aftur hreppir Vettel ráspólinn

Sebastian Vettel var í þessu að vinna ráspól kínverska kappakstursins og eð öðru sætinu í tímatökunni í Sjanghæ tryggði Kimi Räikkönen Ferrariliðinu fremstu rásröðina þriðja kappaksturinn í röð. Aðeins munaði 87 þúsundustu úr sekúndu á þeim félögunum.

Óvenju kalt var í Sjanghæ þegar tímatakan fór fram en Ferrarifákarnir voru heitari en bílar Mercedes, sem höfnuðu á annarri rásröð; Valtteri Bottas í þriðja sæti og Lewis Hamilton í því fjórða.

Fjórir fyrstu menn munu allir hefja keppni á morgun á harðari mjúkdekkjagerðunum tveimur sem stóðu keppendum til boða.

Í lokalotunni urðu annars í fimma til tíunda sæti - í þessari röð - Red Bull mennirnir Max Verstappen og Daniel Ricciardo, Nico Hülkenberg á Renault, Sergio Perez á Force India, Carlos Sainz á Renault og Romain Grosjean á Haas.

Enn eitt mótið náði McLaren ekki í lokalotuna. Fernando Alonso varð þrettándi og Stoffel Vandoorne fjórtándi. Kevin Magnussen hinn danski hjá Haas varð ellefti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert