Aðeins 7 þúsundustu á undan

Lewis Hamilton smeygir sér niður í Mercedesbílinn á seinni æfingunni …
Lewis Hamilton smeygir sér niður í Mercedesbílinn á seinni æfingunni í Sjanghæ. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes setti aftur besta tímann á seinni æfingu dagsins í Sjanghæ en var nú aðeins sjö þúsundustu úr sekúndu fljótari með hringinn en Kimi  Räikkonen á Ferrari. Á þeim munaði 0,4 sek. á fyrri æfingunni. 

Eins og á þeirri fyrri ók Valtteri Bottas þriðja besta hringinn á  seinni æfingunni. Sótti hann mjög á Hamilton og var aðeins 33 þúsundustu úr sekúndu frá brautartíma hans. Og innan við 0,1 sekúnda skildi fyrstu fjóra menn af en Sebastian Vettel á Ferrari setti fjórða besta tímann.

Í sætum fimm til tíu á  lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar urðu - í þessari röð - Max Verstappen á Red Bull, Nico Hülkenberg á Renault, Kevin Magnussen á Haas, Carlo Sainz á Renault, Daniel Ricciardo á Red Bull og Fernando Alonso á McLaren. Á tíma Alonso og Hamilton munaði 1,1, sekúndu.

Aðra æfinguna í röð rak Lance Stroll á Williams restina. Var hann 3,6 sekúndum lengur með hringinn en Hamilton. Gefur það kannski ekki rétta mynd af hversu slakur Williamsbíllinn óneitanlega er í ár því liðsfélagi hans Sergej Sírotkín stóð sig betur og var 1,8 sekúndum á eftir Hamilton.

Lewis Hamilton á seinni æfingunni í Sjanghæ.
Lewis Hamilton á seinni æfingunni í Sjanghæ. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert