Martröð í myrkrinu

Verði Sebastian Vettel af heimsmeistaratitli ökumanna í ár getur hann engum öðrum en sjálfum sér kennt. Ástæðan er óþarfa áhætta í ræsingunni í Singapúr sem leiddi til samstuðs og brottfalls bæði hans, liðsfélaga hans Kimi Räikkönen og Max Verstappen hjá Red Bull.

Vettel hugðist loka fyrir Verstappen leið inn í fyrstu beygju en á sama tíma var Räikkönen kominn upp að vinstri hlið hans. Verstappen komst hvergi og var eins og ostasneið í samloku Ferraribílanna, rakst utan í þá báða og löskuðust allir það mikið að ekki var lengra ekið. 

Tap Ferrari í keppni bílsmiða var sárt en klúðrið getur orðið Vettel einkar dýrkeypt í titilslagnum. Lewis Hamilton greip gullið tækifæri eftir að hafa ræst af stað í fimmta sæti. Slapp hann hjá árekstrinum og komst í forystu sem hann lét aldrei frá sér. Með því er hann kominn með 28 stiga forskot á Vettel í titilkeppninni. 

Fernando Alonso hjá McLaren var saklaust fórnarlamb árekstursins og fékk inn í sig einn hinna fyrrnefndu bíla. Varð það mikið tjón á McLarenbílnum að hann neyddist til að hætta keppni nokkrum hringjum síðar. Eru þeir Verstappen í harðri keppni um hvor þeirra fellur oftar úr leik en brottfall Red Bull þórsins er hið sjöunda í 12 mótum. Aftur á móti er brottfall Vettels hið fyrsta í 19 síðustu mótum.

Sigur númer 60

Hamilton þurfti ekki að hafa fyrir sigrinum, hinum sextugasta á ferlinum. Var hann alla leið nógu langt á undan Daniel Ricciardo hjá Red Bull en þriðji varð svo Valtteri Bottas hjá Mercedes.

Nico Hülkenberg hjá Renault var lengst af í fjórða sæti en varð að hætta undir lokin vegna vélkerfisbilunar. Liðsfélagi hans Jolyon Palmer varð sjötti og vann þar með sínu fyrstu keppnisstig á árinu. Arftaki hans hjá Renault, Carlos Sainz hjá Toro Rosso, kom fjórði í mark og fimmti varð Sergei Perez á Force India.

Stoffel Vandoorne hjá McLaren varð sjöundi og hélt því sæti alveg frá upphafi til enda. Í síðustu þremur stigasætunum höfnuðu Lance Stroll hjá Williams og Frakkarnir Romain Grosjean hjá Haas og Esteban Ocon hjá Force India. Aðeins 12 ökumenn af 20 komust alla leið  í mark.

Keppnin hófst í léttri úrkomu og tók það bílana langan tíma að þurrka hana eftir að úrkomunni linnti. Er þetta í fyrsta sinn sem brúka þarf regndekk í Singapúr, þar hefur ekki rignt áður meðan kappaksturinn fer fram. Vegna þessa og þriggja tafa þar sem öryggisbíll var kallaður út náðist ekki að klára alla hringi og keppni því hætt eftir tvær klukkustundir. Það hefur þrisvar áður gerst í Singapúr.

Hamilton eykur forskotið og Mercedes líka

Hamilton hlaut 25 stig fyrir sigurinn og er nú með 28 stiga forskot á Vettel en fyrir mótið var á allra vörum að brautin hentaði ekki Mercedes og Vettel ætti því alla möguleika á að endurheimta forystuna sem Hamilton náði með sigrinum í Monza fyrir hálfum mánuði. Staðan er sú að Hamilton er með 263 stig, Vettel 235 og Bottas 212. Ricciardo er með 162 í fjórða sæti og Räikkönen 138 í því fimmta. Verstappen er með 68 stig eða jafn mörg og Sergio Perez. 

Í keppni bílsmiða er staðan 475:373 milli Mercedes og Ferrari, eða rösk hundrað stig. Red Bull er með 230 stig, Force India 124, Williams 59, Toro Rosso með 52, Renault 42, Haas 37, McLaren 17 og Sauber fimm stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert