Fær ekki vélar Ferrari eða Mercedes

Vélar Honda hefur skort afl og endingu. Hér er Belginn …
Vélar Honda hefur skort afl og endingu. Hér er Belginn Stoffel Vandoorne á æfingu í Silverstone. AFP

McLaren virðist hafa farið bónleið til búðar því liðsstjórinn Zak Brown gefur til kynna að möguleikinn á að fá vélar í keppnisbíla sína frá annað hvort Mercedes eða Ferrari á næsta ári sé úr sögunni.

Brown gefur til kynna að liðin vilji ekki taka áhættu á því að leggja skeinuhættum keppinautum til vélar af ótta við að eiga eftir að lúta í lægra haldi í keppni fyrir McLaren.

McLarenstjórinn segir að þessum tveimur gömlu keppinautum McLaren leiðisti ekki sú staða sem enska liðið er í, á botni liðakeppninnar í formúlu-1. Hefur þriggja ára samstarf þess við japanska bílsmiðinn Honda lítinn sem engan árangur borið. Japönsku vélarnar hafa staðið öðrum að baki og skort bæði afl og endingu.

Brown segir að liðsmenn McLaren vinni hart að því frá morgni til kvölds alla daga að reyna betrumbæta stöðu sína. „Við ætlum að vinna okkur út úr þessu með Honda. Sérhver dagur er nýr dagur,“ sagði Brown.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert