Fyrsti ráspóll Kimi í níu ár

Kimi Räikkönen á ferð í Mónakó í dag.
Kimi Räikkönen á ferð í Mónakó í dag. AFP

Kimi Räikkönen var í þessu að vinna ráspól Mónakókappakstursins og annar varð félagi hans hjá Ferrari, Sebastian Vettel. Lewis Hamilton féll úr leik í  annarri lotu og varð fjórtándi.

Fara verður aftur til ársins 2005 til að finna Räikkönen ráspól í Mónakó árið 2005 en síðasti póll hans fyrir þann í dag var í franska kappakstrinum í Magny Cours árið 2008.

Keppnin um ráspólinn stóð milli þeirra Räikkönens og Vettels og var sá síðarnefndi hraðskreiðari í fyrstu tveimur lotunum. Räikkönen sneri dæminu við í lokalotunni og tvíbætti þá brautarmet Vettels frá æfingunni í morgun. Ráspólstíminn mældist 1:12,178 sekúndur.

Kimi Räikkönen í Mónakó í dag.
Kimi Räikkönen í Mónakó í dag. AFP


Vettel var aðeins 43 þúsundustu úr sekúndu á eftir Räikkönen á 1:12,221 mínútu, en það sem meira er; hann velti Valtteri Bottas hjá Mercedes úr öðru sætinu og tryggði Ferrari fremstu rásröðina með hring sem var aðeins tveimur þúsundustu úr sekúndu betri en tími Bottas.

Lewis Hamilton hjá Mercedes hefur átt erfiða daga í Mónakó að þessu sinni. Akstursmistök í annarri lotu urðu á endanum til þess að hann hafnaði í 14. sæti og komst ekki í lokalotuna. Þar sem Jenson Button hjá McLaren færist aftur um 15 sæti vegna endurnýjunar íhluta í aflrásinni fær Hamilton 13. rásstaðinn.

Kimi Raikkonen í Mónakó.
Kimi Raikkonen í Mónakó. AFP


Button komst alla leið í lokalotuna þrátt fyrir að hafa ekki ekið kappakstursbíl frá í fyrra. Hann varð í níunda sæti. Liðsfélagi hans Staffel Vandoorne varð sjötti í annarri lotu en ók á vegg og tjónaði bíl sinn á innhring í lokin. Gat hann þar af leiðandi ekki tekið þátt í lokalotunni og varð tíundi.

Í sætum fjögur og fimm í tímatökunni urðu Red Bull félagarnir Max Verstappen og Daniel Ricciardo. Carlos Sainz á Toro Rosso varð sjötti og Sergio Perez á Force India sjöundi. Loks varð Romain Grosjean á Hass í áttuna sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert